

VIÐ ERUM...
Kammerkórinn Schola Cantorum var stofnaður árið 1996 af stjórnanda kórsins, Herði Áskelssyni. Kórinn hefur síðan starfað við góðan orðstír og haldið fjölda tónleika ýmist hér á landi og erlendis. Kórinn hefur með reglubundnum hætti haldið tónleika í Hallgrímskirkju við ýmis tilefni þar sem hljómað hefur bæði
gömul tónlist og ný.
Kórinn hefur getið sér gott orð fyrir vandaðan kórsöng og jafnan hlotið hástemmt lof gagnrýnenda.
FRÉTTIR
NÆSTU VIÐBURÐIR
Annar í Hvítasunnu, mánudagur 6. júní kl. 20:00
Guðspjall Maríu eftir Huga Guðmundsson
Frumflutningur á Listahátíð í Reykjavík
Tónleikastaður: Hallgrímskirkja í Reykjavík
Þriðjudagur 14. júní kl. 20:00
Guðspjall Maríu eftir Huga Guðmundsson
Tónleikastaður: Frederiksberg Kirke - Kaupmannahöfn
Þriðjudagur 6. september kl. 20:00
Guðspjall Maríu eftir Huga Guðmundsson
Alþjóðlega Kirkjutónlistarhátíðin í Osló
Tónleikastaður: Oslo Cathedral
Mánudagur 23. maí 2022
Vor í lofti hjá Schola Cantorum
– helstu tíðindi og næstu verkefni
Síðasta starfsár: Ný hljómplata og tónleikar í heimsfaraldri
Líkt og hjá mörgum listamönnum hafa undanfarin tvö ár verið með óvenjulegu sniði og heimsfaraldur haft áhrif á ýmis verkefni hjá Schola Cantorum. Hópurinn lét þó ekki deigan síga og tók upp vandaða plötu In Paradisum með stórkostlegum kórverkum. Upptökur fóru fram í Skálholti á haustdögum 2021 undir dyggri stjórn Harðar Áskelssonar. Efnisskrá plötunnar inniheldur íslensk og erlend kórverk frá 20. og 21. öld, samin til flutnings án undirleiks af þekktum samtímatónskáldum á borð við John Tavener, Daniel Elder, Pawel Lucaszewsky, Hauk Tómasson, Þóru Marteinsdóttur og Hreiðar Inga Þorsteinsson. Hið heimsþekkta og virta útgáfufyrirtæki BIS gefur út plötuna og er hún væntanleg síðari hluta árs.
Með upptökustjórn fór þýski tónmeistarinn Jens Ulrich Braun. Kórinn fagnaði vel heppnaðri upptökuhelgi með því að flytja efnisskrá plötunnar á tónleikum í Háteigskirkju 26. september síðastliðinn.
Schola Cantorum tók þátt í Sönghátíð í Hafnarborg síðastliðið sumar og kom fram fyrir fullum sal, þegar veiran var í hvíld. Það var sannarlega kærkomið að fá loks að syngja fyrir áheyrendur eftir töluvert hlé vegna samkomutakmarkana. Tónleikarnir báru yfirskriftina Vinaspegill og viðtökur voru afar góðar. Hópurinn naut þess að flytja íslensk kórverk, klassískar perlur en einnig nýrri verk sérstaklega samin fyrir hópinn, þar á meðal þrjú verk við texta úr Hávamálum um vináttuna eftir tónskáldin Gunnar Andreas Kristinsson, Hreiðar Inga Þorsteinsson og Huga Guðmundsson.
Sú breyting hefur orðið á högum kórsins að hann hefur ekki lengur aðsetur í Hallgrímskirkju, heimili kórsins til 25 ára. Kórinn hefur frá stofnun notið þess að fá að syngja í undursamlegum hljómburði hennar, en hefur nú haldið á vit nýrra ævintýra með dýrmæta reynslu í farteskinu. Æfingar hafa farið fram í Neskirkju, Fríkirkjunni í Reykjavík og Seltjarnarneskirkju í vetur, og kann Schola Cantorum forsvarsmönnum þar hjartans þakkir fyrir einstaka velvild og hlýhug.
Framundan hjá kórnum:
Guðspjall Maríu Huga Guðmundssonar – frumflutningur í norrænu samstarfi
Ýmis áhugaverð verkefni eru fyrirhuguð á árinu 2022. Það sem næst er á dagskrá eru æfingar og frumflutningur á nýrri óratóríu, The Gospel of Mary, eða Guðspjall Maríu eftir Huga Guðmundsson. Verkið er skrifað sérstaklega fyrir Schola Cantorum, sópran-söngkonu og hljómsveit. Þar segir frá Maríu Magdalenu en guðspjallið sem byggir á handritsbrotum sem fundust ekki fyrr en í kringum aldamótin 1900, gefur mynd af mikilvægri stöðu kvenna innan hins frumkristna safnaðar og þar skipar María jafnvel hærri sess en lærisveinarnir. Hér er því verið að tónsetja efni sem hefur hvergi hljómað og má líta á sem mótvægi við allar þær óratoríur sem hafa verið samdar til heiðurs guðspjallamönnum í gegnum tíðina.
Frumflutningur fer fram á Listahátíð í Reykjavík og með okkur verða Oslo Sinfonietta og sópransöngkonan Berit Norbakken. Viðburðurinn fer fram í Hallgrímskirkju og er á vegum Listvinafélagsins.
Því næst verður verkið flutt á KLANG tónlistarhátíðinni í Kaupmannahöfn 10. júní ásamt Aarhus Sinfonietta og í kjölfarið tekið upp þar í landi. Allt er þegar þrennt er og 6. september verður verkið flutt í Oslo Cathedral í Noregi.
Verkefnið í heild sinni er í umsjón Listvinafélags Reykjavíkur sem pantaði verkið upphaflega frá Huga og skipuleggur verkefnið í samvinnu við Listahátíð í Reykjavík, Oslo Sinfonietta og Aarhus Sinfonietta.