top of page

Hörður Áskelsson

4-Gospel rehearsal 1.jpg

Kammerkórinn Schola Cantorum hefur verið mikilvirkur flytjandi tónlistar undir stjórn Harðar Áskelssonar í 25 ár. Kórinn hefur á þessum árum komið víða við en látið hvað mest að sér kveða í flutningi tónlistar frá 20. og 21. öld. Hópurinn hefur frumflutt verk eftir fjölda tónskálda og lagt áherslu á reglulegt tónleikahald og hljóðritanir. Schola Cantorum hefur unnið með fjölmörgum listamönnum og hópum við tónleikahald, upptökur fyrir geislaplötur, sjónvarp og kvikmyndir. Má þar má nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, Björk, Sigur Rós, Wildbirds and Peacedrums, Hjaltalín, Tim Hecker, Ben Frost, Jóhann Jóhannsson og Kjartan Sveinsson. Þá söng kórinn tónlist Bear McCreary í upptökum fyrir tölvuleikinn God of War sem Sony Playstation gaf út 2018. Kórinn hefur síðan haldið áfram samstarfi við tölvuleikjarisann og er afraksturs þess að vænta bráðlega.                        
Schola Cantorum heldur reglulega tónleika erlendis og hefur hópurinn komið fram á virtum og vel sóttum tónistarhátíðum, svo sem á Reykjavík Festival í boði Fílharmóníusveitar Los Angeles í Walt Disney Concert Hall 2017 og á tónlistarhátíðinni Culturescapes ı́ Sviss 2015. Kórinn hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og unnið til verðlauna ı́ keppnum ı́ Frakklandi og á Ítalíu. Þá var kórinn tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007 og valinn Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2006. Schola Cantorum var útnefndur Tónlistarflytjandi ársins ı́ flokki sígildrar og samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaunum 2017.                    
Schola Cantorum hefur sent frá sér marga geisladiska. Meditatio kom út á vegum sænsku útgáfunnar BIS og hefur hlotið afar lofsamlega umfjöllun víða um heim. Söngur Schola Cantorum hljómar jafnframt á fleiri diskum frá BIS í heildarútgáfu fyrirtækisins á hljómsveitar- og kórverkum Jóns Leifs. Væntanlegur er hljómdiskur frá sömu útgáfu með hljóðritunum sem fram fóru í september 2021 í Skálholti.

    
Framundan eru fleiri hljóðritanir og fjölbreytt tónleikahald þar sem nefna má jóladisk á vegum BIS með nýlegum íslenskum jólalögum, frumflutning á óratóríunni The Gospel of Mary eftir Huga Guðmundsson og flutning á tímamótaverkinu Maríuvesper eftir Claudio Monteverdi.

Meðlimir Schola Cantorum

Sórpan

Fjóla Kristín Nikulásdóttir
Ingibjörg Fríða Helgadóttir
Ragnheiður Sara Grímsdóttir
Rakel Edda Guðmundsdóttir
Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir
Vigdís Sigurðardóttir

Alt

Auður Guðjohnsen
Halla Marínósdóttir
Hildigunnur Einarsdóttir
Jóhanna Ósk Valsdóttir
Lilja Dögg Gunnarsdóttir

Tenór

Björn Thorarensen
Helgi Steinar Helgason
Þorkell Helgi Sigfússon
Þorsteinn Freyr Sigurðsson
Þórhallur Auður Helgason

Bassi

Benedikt Ingólfsson
Björn Bjarnsteinsson
Hafsteinn Þórólfsson
Philip Barkhudarov
Örn Ýmir Arason

Hörður Áskelsson hefur verið organisti og kantor Hallgrímskirkju frá því hann lauk framhaldsnámi í Düsseldorf í Þýskalandi árið 1982. Hann hefur gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu listalífs kirkjunnar og stóð meðal annars að stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju, Kirkju-listahátíðar og Alþjóðlega orgelsumarsins.

 

Árið 1982 stofnaði hann Mótettukór Hallgrímskirkju og kammerkórinn Schola cantorum árið 1996. Með kórunum hefur hann flutt flestar helstu perlur kórbókmenntanna bæði með og án undirleiks. Þá hefur hann stjórnað frumflutningi margra verka fyrir kór og hljómsveit sem íslensk tónskáld hafa skrifað á undanförnum árum og má nefna Passíu eftir Hafliða Hallgrímsson, óratóríuna Cecilíu eftir Áskel Másson og Thor Vilhjálmsson og Fléttu eftir Hauk Tómasson.

 

Sem organisti hefur Hörður haldið tónleika í mörgum stærstu kirkjum Evrópu, m.a. í Köln, París og Helsinki. Hann hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistar-lífs á Íslandi, þ.á m. Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2001, Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004 og Íslensku bjartsýnisverðlaunin árið 2006. Þá var hann borgarlistamaður Reykjavíkur 2002.

 

Hörður hefur kennt orgelleik og kórstjórn við Tónskóla þjóðkirkjunnar og á árunum 1985–1995 var hann lektor í litúrgískum söngfræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands. Hörður gegndi embætti Söngmálastjóra þjóðkirkjunnar árin 2005–2011.

Schola Cantorum

bottom of page