Schola cantorum
Hörður Áskelsson

Schola cantorum var stofnaður haustið 1996 af Herði Áskelssyni, kantor við Hallgrímskirkju. Þá var kórinn skipaður 17 manns sem allir voru með mikla kórreynslu og margir hverjir lærðir söngvarar. Lagt var upp með það eitt að markmiði að flytja góða tónlist en kórinn hefur síðan markað sér sérstöðu meðal íslenskra kóra með flutningi tónlistar gamalla meistara endurreisnar í bland við íslenska nútímatónlist. Kórinn hefur einnig flutt mörg af stórvirkjum kórtónbókmenntanna eins og Messías eftir Händel og Jólaoratóríuna eftir J.S. Bach.
Fyrstu tónleikar kórsins voru haldnir í byrjun aðventu 1996 og síðan þá hefur kórinn haldið tónleika reglulega. Á þessum fyrstu tónleikum mátti heyra margar af perlum tónbókmenntanna sem skrifaðar hafa verið fyrir hóp söngradda án undirleiks og voru undirtektir áheyrenda sem og gagnrýnenda mjög góðar. Eftir því sem kórnum óx fiskur um hrygg færðist hann meira í fang og í október 1998 hélt Schola cantorum til keppni við aðra kóra í Noyon í Frakklandi og lenti þar í fyrsta sæti. Í kjölfarið hefur kórinn fengið boð um og tekið þátt í fleiri keppnum og hátíðum erlendis með glæsilegum árangri.
Þá fóru að berast beiðnir um að Schola cantorum tæki að sér sérstök verkefni. Til að mynda var kórinn fulltrúi Íslands á norræna kirkjutónlistarmótinu Jubilemus sem fram fór í Finnlandi árið 2000. Þá leitaði Sinfóníuhljómsveit Íslands til Schola cantorum um þátttöku í heildarútgáfu á verkum Jóns Leifs sem sænska útgáfufyrirtækið BIS stendur fyrir. Skálholtsútgáfan leitaði enn fremur til kórsins um flutning á mörgum okkar ástsælustu sálma á geisladisknum Sálmar í gleði. Schola cantorum var einnig meðal flytjenda í verkinu Barn er oss fætt eftir John Speight sem út kom á vegum Smekkleysu fyrir jólin 2006 en það verk hafði áður hlotið íslensku tónlistarverðlaunin sem sígilt tónverk ársins 2002 auk þess sem Ríkisútvarpið hlaut sérstök verðlaun á vegum evrópskra útvarpsstöðva í kjölfar útsendingar á flutningi verksins í Hallgrímskirkju í samevrópskri tónleikadagskrá. Þá tók kórinn þátt í einhverju viðamesta verkefni í sögu Listahátíðar í Reykjavík þegar norrænir kraftar sameinuðust í frumuppsetningu á tóndansverkinu Baldr menningarborgarárið 2000. Árið 2002 tók hann síðan þátt í flutningi á hinum magnaða Hrafnagaldri Óðins, ásamt Sigur Rós, Hilmari Erni Hilmarssyni og Steindóri Andersen. Síðan hefur Hrafnagaldur farið til Þrándheims og Frakklands og alls staðar fengið feykilega góðar undirtektir áheyrenda. Þá er að geta framlags kórsins á geisladiski Bjarkar Guðmundsdóttur Medulla, en þar myndar kórinn, ásamt fleiri raddlistamönnum, meginhljómgrunn laganna í stað hljóðfæra. Í framhaldinu kom kórinn fram með Björk til að kynna geisladiskinn í London og París.
Í desember 2011 hélt 8 manna hópur í Schola cantorum til Japan til söngs í tengslum við opnun tískuhúss Louis Vuitton í Osaka, en fyrirtækið leitaði eftir góðum norrænum kór að flytja jólatónlist og norræna tónlist og var bent á Schola cantorum.
Kórinn hefur átt gott samstarf við Alþjóðlegu barokksveitina í Haag sem skipuð er ungu tónlistarfólki sem hefur sérmenntað sig í flutningi barokktónlistar á upprunaleg hljóðfæri. Fyrirhugað er frekara samstarf við hljómsveitina að viðbættum íslenskum barokklistamönnum. Meðal samstarfsverkefna við hljómsveitina má nefna Jólaóratóríu Bachs sem flutt var 2005, Ísrael í Egyptalandi eftir Händel 2007 þar sem hinn þekkti kontratenór Robin Blaze var einnig meðal flytjenda og Messías eftir Händel sem flutt var á nýársdag árið 2009.
Áður er getið um útgefna geisladiska BIS með helstu kórverkum Jóns Leifs og geisladiskinn Sálmar í gleði sem kórinn hefur sungið á. Auk þessa hefur Schola cantorum gefið út þrjá geisladiska sjálfur, Prinicipium með verkum frá endurreisnartímanum, Heyr himna smiður með íslenskum nútímakórverkum, sem tilnefndur var til íslensku tónlistar-verðlaunanna og Foldarskart sem kom út árið 2012 og hefur að geyma úrval íslenskra kórlaga. Þá hefur Ríkisútvarpið staðið fyrir upptökum á tónleikum kórsins og útsendingu þeirra. Einnig hafa komið út diskarnir Hallgrímspassía þar sem kórinn flytur samnefnt verk Sigurðar Sævarssonar ásamt hljómsveit og einsöngvurum og Flétta þar sem heyra má tónleikaupptöku af flutningi Schola cantorum, Mótettukórs Hallgrímskirkju og Kammersveitar Reykjavíkur á samnefndu verki Hauks Tómassonar.
Verkefnaskrá kórsins frá tónleikum áranna 1996−2013 er löng og inniheldur fjölbreytileg verkefni þar sem áberandi er pólýfónía endurreisnartímans, umfangsmiklar óratóríur barokksins, a-cappella kórtónlist þýskrar rómantíkur, 20. aldar tónlist og síðast en ekki síst frumflutt íslensk tónlist sem jafnan hefur skipað stóran sess í starfsemi Schola cantorum.
Með öðrum orðum, tónlist sem spannar mestalla tónlistarsöguna héðan og þaðan úr heiminum.
Óhætt er að segja að kaflaskil hafi orðið á starfsemi Schola cantorum í kjölfar þess að Reykjavíkurborg útnefndi kórinn sem annan af tveimur tónlistarhópum Reykjavíkur árið 2006. Myndarlegur styrkur sem fylgdi nafnbótinni gerði kórnum kleift að fylgja eftir gömlum draumi um að færa starfsemina meira í horf atvinnumennskunnar bæði faglega og listrænt séð.
Eins áður er getið voru stofnfélagar Schola cantorum allir áhugasamir söngvarar með mikla reynslu af kórsöng. Kórinn var að miklu leyti skipaður menntuðu tónlistarfólki sem fékkst við tónlist í daglegum störfum sínum, í mismiklum mæli þó. Aðrir kórfélagar höfðu áralanga reynslu af söng í kór. Efnt var til áheyrnarprófa í janúar 2006 fyrir allar stöður kórsins. Úr stórum hópi umsækjenda var valinn 14 manna hópur, eftir mat dómnefndar og stjórnanda kórsins, fyrir fyrsta verkefni kórsins, tónleika í Hallgrímskirkju 26. mars 2006 þar sem flutt voru kórverk og sólókonsertar eftir Heinrich Schütz (1585−1672). Í því verkefni fengu allir söngvararnir að spreyta sig sem einsöngvarar, sem hlýtur að teljast einsdæmi á kórtónleikum hér á landi.
Hópurinn er breytilegur eftir verkefnum. Þannig sungu 40 söngvarar undir merkjum Schola cantorum í Eddu Jóns Leifs í október 2007 en aðeins 10 í næsta verkefni sem voru barokktónleikar með verkum franska tónskáldsins André Campra í nóvember 2007. Þó er reynt að halda ákveðnum kjarnahópi gegnumgangandi sem fær að syngjast og þroskast saman.
Óhætt er að segja að Schola cantorum hafi sannað gildi sitt í íslensku menningarlífi með metnaðarfullu starfi. Á síðasta ári (2013) hélt kórinn tónleika í mars þar sem flutt var tónlist frá endurreisnartímanum eftir ítölsku tónskáldin Gabrieli, Allegri og Palestrina auk þriggja samtímaverka eftir norska tónskáldið Knut Nystedt. Um sumarið voru haldnir 12 hádegistónleikar á miðvikudögum þar sem fluttar voru perlur íslenskrar kórtónlistar, en kórinn hefur staðið fyrir slíkri hádegistónleikaröð síðan 2009. Þeir eru ekki síst hugsaðir til að kynna íslenska kórtónlist fyrir þeim fjölda ferðamanna sem heimsækir Hallgrímskirkju og hafa þeir mælst mjög vel fyrir og notið sívaxandi vinsælda. Um miðjan ágúst hélt kórinn glæsilega tónleika ásamt kammersveit á Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju. Þar voru flutt verk eftir eistneska tónskáldið Arvo Pärt og spannaði efnisskráin stóran hluta höfundarferils hans. Svo vel tókst til með flutninginn að Schola cantorum var útnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013 sem flytjandi ársins fyrir þá tónleika. Fyrsta sunnudag í aðventu hélt kórinn svo aðventutónleika þar sem flutt var hátíðleg aðventu- og jólatónlist á sex tungumálum sem hlutu mikið lof gagnrýnenda og áheyrenda. Tónlistarárinu 2013 lauk Schola cantorum svo með hádegistónleikum á miðvikudögum á aðventunni þar sem flutt var aðventu- og jólatónlist úr ýmsum áttum.
Kórsins bíða ýmis verkefni á árinu 2014, minningartónleikar um tónskáldið Þorkel Sigurbjörnsson sem lést snemma árs 2013 verða haldnir sunnudaginn 2. febrúar. Páskaoratoría eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson og Rejoice in the Lamb eftir Benjamin Britten verða á dagskránni 2. í páskum (21. apríl), hádegistónleikar sumarsins verða á sínum stað og fleiri verkefni eru í farvatninu sem skýrast munu betur þegar líður á árið.
Hörður Áskelsson hefur verið organisti og kantor Hallgrímskirkju frá því hann lauk framhaldsnámi í Düsseldorf í Þýskalandi árið 1982. Hann hefur gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu listalífs kirkjunnar og stóð meðal annars að stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju, Kirkju-listahátíðar og Alþjóðlega orgelsumarsins.
Árið 1982 stofnaði hann Mótettukór Hallgrímskirkju og kammerkórinn Schola cantorum árið 1996. Með kórunum hefur hann flutt flestar helstu perlur kórbókmenntanna bæði með og án undirleiks. Þá hefur hann stjórnað frumflutningi margra verka fyrir kór og hljómsveit sem íslensk tónskáld hafa skrifað á undanförnum árum og má nefna Passíu eftir Hafliða Hallgrímsson, óratóríuna Cecilíu eftir Áskel Másson og Thor Vilhjálmsson og Fléttu eftir Hauk Tómasson.
Sem organisti hefur Hörður haldið tónleika í mörgum stærstu kirkjum Evrópu, m.a. í Köln, París og Helsinki. Hann hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistar-lífs á Íslandi, þ.á m. Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2001, Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004 og Íslensku bjartsýnisverðlaunin árið 2006. Þá var hann borgarlistamaður Reykjavíkur 2002.
Hörður hefur kennt orgelleik og kórstjórn við Tónskóla þjóðkirkjunnar og á árunum 1985–1995 var hann lektor í litúrgískum söngfræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands. Hörður gegndi embætti Söngmálastjóra þjóðkirkjunnar árin 2005–2011.

